Skip to main content
Category

Fréttir

Matarkarfan lækkar hressilega í Kjörbúðinni

Í síðustu viku lækkaði verð á 640 vörum í verslunum Kjörbúðanna og nemur lækkunin í mörgum tilfellum tugum prósenta frá fyrra verði. Ákveðið var að fjölga þeim vörum sem merktar eru sérstaklega með grænum punkti, en það eru vörur sem seldar eru á verði sambærilegu við það sem býðst í lágvöruverðsverslunum, segir í tilkynningu frá Samkaupum en Kjörbúðin er hluti af verslanakeðju þeirra og eru í Sandgerði og Garði.

„Markmiðið með rekstri Kjörbúðarinnar er alltaf að bjóða viðskiptavinum okkar upp á vöruúrval, þjónustu og verð sem mætir þeirra þörfum og kröfum. Við reynum því eftir fremsta megni að bjóða upp á fjölbreytt vöruúrval á breiðu verðbili og vera með samkeppnishæf verð,“ segir Kristín Gunnarsdóttir, rekstrarstjóri Krambúða og Kjörbúða hjá Samkaupum.

„Kjörbúðir eru staðsettar utan höfuðborgarsvæðisins og flestar eru í byggðarlögum þar sem fáar aðrar verslanir starfa. Við viljum gera það sem þarf til að halda Kjörbúðunum í þessum byggðarlögum gangandi. Verslun er mikilvægur innviður í hvaða byggðarlagi sem er. Þær skapa atvinnu, en það er líka mikilvægt fyrir lífvænleika samfélaga að þar sé hægt að kaupa nauðsynjavörur án þess að keyra til þess lengri leið í aðra bæi. Þetta þekkir best það fólk sem býr á stöðum þar sem verslun hefur lagst af.“

Kristín bendir á að frá áramótum hafi verið unnið að því að færa verð margra nauðsynjavara í Kjörbúðinni að því verði sem býðst í lágvöruverðsverslunum eins og Nettó. „Þessar vörur eru sérmerktar með grænum punkti í verslunum Kjörbúðarinnar og viðbrögðin hafa verið mjög góð. Að fjölga vörutegundunum í þessum flokki er vissulega kostnaðarsamt fyrir okkur, en er rökrétt næsta skref í þessari vegferð sem við höfum verið á síðustu misseri.“

Kristín segir að Samkaup hafi trú á því að sú ákvörðun að lækka verðið á vörukörfu viðskiptavina muni skila sér í aukinni veltu og meiri sölu. „Þá bindum við sannarlega vonir við að þetta verði birgjunum hvatning til að taka þátt í vegferðinni með okkur og að þannig getum við boðið jafnvel enn betri verð fyrir viðskiptavini.“

Kristín segir starfsfólk Kjörbúðanna spennt fyrir þessum breytingum og hlakki til að sjá viðbrögð viðskiptavina. „Það er alltaf eitthvað að gerast hjá okkur. Næst á dagskránni eru vítamíndagarnir og svo heilsudagar i september og þar eru alltaf góð tilboð til viðbótar við þessar lækkanir sem við kynnum núna.“

Um Samkaup

Samkaup rekur rúmleg 60 smávöruverslanir víðsvegar um landið. Viðskiptavinir Samkaupa geta valið á milli helstu verslunarkeðja félagsins. Þær eru Nettó, Kjörbúðin, Krambúð og Iceland. Staða Samkaupa er áberandi og sterk bæði utan sem og innan höfuðborgarsvæðisins. Félagið býður uppá myndarlegar verslanir, fjölbreytt vöruúrval og sanngjarnt verð.

Samtals söfnuðust 8,4 milljónir í sjóð Bryndísar

Sam­tals söfnuðust 8,4 millj­ón­ir í Minn­ing­ar­sjóð Bryn­dís­ar Klöru Birg­is­dótt­ur, sem lést af sár­um sín­um nokkr­um dög­um eft­ir hnífstungu­árás á Menn­ing­arnótt. Safnaðist upp­hæðin með sölu á friðarkert­um í versl­un­um og með áheita­söfn­un nem­enda við Sala­skóla, en þar var Bryn­dís Klara nem­andi.

Halla Tóm­as­dótt­ir, vernd­ari minn­ing­ar­sjóðsins, tók í dag við 6,9 millj­ón­um sem söfnuðust af sölu Krón­unn­ar, Bón­uss, Nettós og Hag­kaupa á friðarkert­un­um.

Nem­end­ur við Sala­skóla af­hentu Höllu einnig 1,45 millj­ón­ir sem þau söfnuðu með áheit­um af hlaupi.

Minn­ing­ar­sjóður­inn mun styðja við verk­efni sem miða að því að vernda börn gegn of­beldi og efla sam­fé­lag þar sem sam­kennd og sam­vinna eru í for­grunni.

Áheitahlaup nemenda Salaskóla.
Áheita­hlaup nem­enda Sala­skóla. Ljós­mynd/​Aðsend

Merkja 1.500 vörur með grænum punkti

Kjör­búðin býður upp á yfir 1.500 lyk­il­vör­ur á lág­vöru­verði, og hef­ur nú merkt þær með græn­um punkti til að auðvelda viðskipta­vin­um að þekkja þær. Lyk­il­vör­ur eru þær vör­ur sem eru mest keypt­ar af ná­grönn­um hverr­ar versl­un­ar.

Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá Kjör­búðinni.

Seg­ir þar að „Lyk­il­vör­ur á lág­vöru­verði“ séu hluti af þeirri stefnu Kjör­búðar­inn­ar að tryggja hag­kvæma versl­un í heima­byggð, en lyk­il­vör­ur séu þær vör­ur sem heima­fólk kaup­ir mest inn fyr­ir heim­ilið.

Ný­lega var vör­un­um fjölgað úr 1.000 í 1.500, og eru þær nú all­ar merkt­ar með græn­um punkti á hillumiðanum. Viðskipta­vin­ir eru sagðir geta treyst því að vara merkt með græn­um punkti sé alltaf á sam­bæri­legu verði og í lág­vöru­verðsversl­un.

Stand­ist alltaf sam­an­b­urð

„Hug­mynd­in að grænu punkt­un­um spratt upp frá at­huga­semd­um viðskipta­vina okk­ar um það hvernig við get­um best mætt ósk­um þeirra um lægra vöru­verð,“ er haft eft­ir Ásdísi Rögnu Valdi­mars­dótt­ur, markaðsstjóra Kjör­búðar­inn­ar, í til­kynn­ingu.

„Valið á þess­um vör­um bygg­ir á því hvaða vör­ur eru mest seld­ar bæj­ar­bú­um og nærsveit­ung­um hverr­ar versl­un­ar, og get­um við því verið sveigj­an­leg í því vali til að mæta kröf­um og þörf­um á hverj­um stað.

Okk­ar lof­orð er að verðið á punkta­merkt­um vör­um stand­ist alltaf sam­an­b­urð við verð á sam­bæri­leg­um vör­um hjá lág­vöru­verðsversl­un­um.“

Sex­tán versl­an­ir

Kjör­búðin er sú versl­un­ar­keðja sem rek­ur flest­ar versl­an­ir utan höfuðborg­ar­svæðis­ins, eða 16 tals­ins, sem fel­ur í sér ákveðna stærðar­hag­kvæmni. Þá hag­kvæmni seg­ist Kjör­búðin nýta sér til að halda uppi góðum rekstri, og að hún geti þar með komið bet­ur til móts við þarf­ir kjarna-viðskipta­vina.

„Að reka mat­vöru­versl­un í byggðum þar sem fólks­fjöld­inn ber ekki stór­ar lág­vöru­verðsversl­an­ir krefst mik­ill­ar út­sjón­ar­semi,“ er haft eft­ir Krist­ínu Gunn­ars­dótt­ur, rekstr­ar­stjóra Kjör­búðar­inn­ar.

„Við höf­um gripið til margra aðgerða til að halda vöru­verði sem lægstu og höf­um spyrnt á móti verðhækk­un­um birgja. Það ger­um við til að tryggja íbú­um þjón­ustu og versl­un í heima­byggð, en líka til að vera raun­hæf­ur kost­ur fyr­ir íbú­ana. Þannig halda hags­mun­ir okk­ar áfram að liggja sam­an.“

Ráðstefna Jafnvægisvogar

Ráðstefna Jafnvægisvogarinnar, Jafnrétti er ákvörðun, haldin við hátíðlega athöfn

59 fyrirtæki, 6 sveitarfélög og 11 opinberir aðilar hljóta viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis FKA. Á árinu 2022 bættust við 57 nýir þátttakendur í hóp þeirra aðila sem taka þátt í Jafnvægisvoginni.

Frábær árangur á meðal þátttakenda í Jafnvægisvog FKA
Jafnvægisvogin, hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), hélt í dag stafrænu ráðstefnuna Jafnrétti er ákvörðun, sem streymt var í beinni útsendingu á vefsíðu RÚV. Þar kynnti Eliza Reid viðurkenningarhafa Jafnvægisvogarinnar, en það eru þeir þátttakendur sem hafa náð að jafna kynjahlutfall í efsta lagi stjórnunar (framkvæmdastjórn). Á ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar árið 2021 voru viðurkenningarhafar 53 talsins en í ár voru þeir samtals 76. Að hreyfiaflsverkefninu standa auk FKA, forsætisráðuneytið, Sjóvá, Deloitte, Pipar\TBWA og Ríkisútvarpið.

Fimmtíu og níu fyrirtæki, sex sveitarfélög og ellefu opinberir aðilar hljóta viðurkenningu
Jafnvægisvogin veitti viðurkenningar til fimmtíu og níu fyrirtækja, sex sveitarfélaga og ellefu opinberra aðila úr hópi þeirra 209 þátttakenda sem hafa undirritað viljayfirlýsingu. Markmið Jafnvægisvogar um 40/60 kynjahlutfall í efsta stjórnendalagi var haft til hliðsjónar við matið. Stór hluti þeirra þátttakenda sem hafa skrifað undir viljayfirlýsingu Jafnvægisvogarinnar hafa náð góðum árangri á þessu sviði og fjölgaði þeim þátttakendum sem hafa náð markmiðunum um 23 á milli ára.
„Það hefur verið gaman að fylgjast með Jafnvægisvoginni stækka undanfarin ár og jafnréttismál verða að mikilvægu forgangsmáli hjá okkar þátttakendum. Þátttakendur taka stoltir við viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar og hafa verið duglegir að vekja athygli á jafnréttismálum innan sinna vinnustaða með ýmsum hætti. Því miður eru konur eingöngu 24% framkvæmdastjóra fyrirtækja á Íslandi og hefur hlutfallið eingöngu farið upp um 3% á síðustu tíu árum. Ég er þó bjartsýn á að hlutfallið muni fara hraðar upp á næstu árum með aukinni vitundarvakningu meðal þeirra sem taka ákvörðun um ráðningar“ segir Thelma Kristín Kvaran, verkefnastjóri Jafnvægisvogarinnar.

Jafnrétti hefur bein áhrif á umhverfið
Á ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar 2020 var kynntur nýr Jafnréttislundur FKA, sem Skógræktarfélag Reykjavíkur útvegaði Jafnvægisvoginni. Lundurinn er staðsettur við aðalinnganginn í Heiðmörk, Vífilsstaðamegin, og er það fyrsta sem fólk sér þegar það gengur inn í Heiðmörk. Í ár voru gróðursett 76 tré, eitt fyrir hvern viðurkenningarhafa árið 2022. Valdar voru margar tegundir af trjám sem tákn um þann fjölbreytileika sem Jafnvægisvogin er að stuðla að. Alls er búið að setja niður 173 tré í Jafnréttislundi á síðustu 3 árum. Það er markmið Jafnvægisvogarinnar að endurtaka þetta árlega og væri ánægjulegt að sjá hlíðina fyllast á næstu árum, með auknu jafnrétti.

Aðgengileg og skýr framsetning upplýsinga
Jafnvægisvogin heldur úti mælaborði sem er ætlað að halda utan um tölfræðilegar upplýsingar um jafnrétti. Þannig er hægt að tryggja aðhald og góða frammistöðu. Í mælaborði Jafnvægisvogarinnar koma fram allar helstu opinberar upplýsingar um stöðu stjórnenda í íslensku atvinnulífi og innan hins opinbera og þær gerðar aðgengilegar á einfaldan og skýran hátt.

Bættist í hóp fyrirtækja og sveitarfélag sem sjá sér hag í að vinna með Jafnvægisvoginni
Mikill vilji hefur verið hjá fyrirtækjum, sveitarfélögum og opinberum aðilum að vinna að jafnréttismálum þegar kemur að æðstu stjórnendum. Á árinu undirrituðu alls fjörutíu og sjö fyrirtæki, tvö sveitarfélög og átta opinberir aðilar viljayfirlýsingu um að vinna að markmiðum Jafnvægisvogarinnar og bættust þar með í hóp þeirra sem undirrituðu á síðustu árum. Þátttakendur eru orðnir 209 þátttakendur talsins. Fjölbreyttur mannauður hefur jákvæð áhrif á afkomu fyrirtækja sem og starfsánægju og frammistöðu í starfi, stuðlar að betri ákvarðanatöku og aukinni verðmætasköpun þar sem nýsköpun og vöxtur verður frekar í hópi fólks með ólíkar skoðanir og bakgrunn. Þátttakendur hafa þannig sýnt í verki að þau vilja virkja allan mannauðinn.

Eftirfarandi fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir hlutu viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar í ár:

  1. 1912
  2. A4
  3. AGR Dynamics
  4. Akraneskaupstaður
  5. Atmonia
  6. AwareGO
  7. BL
  8. Blue Lagoon
  9. BYKO
  10. Coca-Cola European Partners
  11. Creditinfo
  12. Dagar
  13. Deloitte
  14. dk hugbúnaður
  15. Einingaverksmiðjan
  16. Elkem Ísland
  17. ELKO
  18. Ernst & Young
  19. Fangelsismálastofnun
  20. Félagsbústaðir
  21. Fjallabyggð
  22. Fly Play
  23. Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir
  24. GG verk ehf
  25. Guðmundur Arason
  26. Hafnarfjarðarbær
  27. Hagstofa Íslands
  28. Háskóli Íslands
  29. Heilbrigðisstofnun Austurlands
  30. Heilbrigðisstofnun Suðurlands
  31. Hirzlan
  32. HS Orka
  33. indó sparisjóður
  34. Isavia
  35. Íslandsbanki
  36. Íslandshótel
  37. Íslandspóstur
  38. Krónan
  39. Landgræðslan
  40. Landsvirkjun
  41. Lyf og heilsa
  42. Lyfja
  43. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu
  44. Mannvit
  45. Miklatorg
  46. Múlaþing
  47. Norðurál Grundartanga
  48. Norðurorka
  49. Nova
  50. Olís
  51. Orka náttúrunnar
  52. Orkan
  53. Orkusalan
  54. Orkuveita Reykjavíkur
  55. Ósar – lífæð heilbrigðis
  56. Pipar\TBWA
  57. Rafal
  58. Rangárþing ytra
  59. Reykjanesbær
  60. Rio Tinto á Íslandi
  61. SaltPay
  62. Samkaup
  63. Sjóvá
  64. Skatturinn
  65. Sólar
  66. Taktikal
  67. Tryggingastofnun
  68. Tryggja
  69. Vátryggingafélag Íslands
  70. Vegagerðin
  71. Veitur
  72. Veritas
  73. Vörður tryggingar
  74. Vinnueftirlitið
  75. Wise
  76. Ölfusborg

Frekari upplýsingar veitir: Thelma Kristín Kvaran verkefnastjóri Jafnvægisvogar FKA, sími 690 7643,
jafnvaegisvogin@fka.is

Hjartað réð för til Djúpavogs

Það var um langan veg að fara til Íslands. Hún er frá Mið-Ameríku, Hondúras, heitir Ana Gabriela, 43 ára, og stendur vaktina af mikilli elju sem verslunarstjóri Kjörbúðarinnar á Djúpavogi. Hún er alin upp í höfuðborg Hondúras, Tegucigalpa, sem þýðir Silfurhólar. En það er eitthvað annað og meira en hólar sem umvefja hana á Djúpavogi; tíguleg fjöll Austfjarða með Búlandstind fremstan í fallegum faðmi fjalla.
„Ísland er núna mitt annað heimaland. Hér líður mér vel,“ segir Ana með bros á vör. Hjartað réð för hennar yfir hálfan hnöttinn til Djúpavogs í upphafi. Árið var 2004 og hún flutti til Íslands til að hitta kærasta sinn, Francisco Gomez. Ævintýri hófst.
En eftir bankahrunið haustið 2008 varð hún atvinnulaus og nýfædd dóttir þeirra, Gabriella Ósk G.O., komin í heiminn. „Útlitið var alls ekki gott með vinnu á þessum tíma og það varð úr að við færum heim til Hondúras eftir atvinnulaust ár. Við eignuðumst svo seinni dóttur okkar árið 2013. Hún heitir Fabiana Líf G.O. Áfram var ég úti í Hondúras með stelpurnar en við ákváðum svo árið 2018 að flytja aftur til Djúpavogs,“ segir Ana.
„Ég byrjaði á að vinna á veitingastaðnum Við Voginn. Það var fínt að vera þar, en þótt ég hefði aldrei unnið í verslun ákvað ég að sækja um vinnu í Kjörbúðinni árið 2021. Ég byrjaði sem almennur starfsmaður en fékk mitt tækifæri og varð verslunarstjóri árið 2022. Þetta hefur gengið mjög vel, það er gaman að vinna hér og mikið um að vera.“

FJÖLDI SKEMMTIFERÐASKIPA VIÐ DJÚPAVOG

Ana segir að sumarið hafi verið sérlega gott og sjaldan jafnmargir ferðamenn verið á ferðinni á Djúpavogi. „Það var mikið að gera hér í sumar, sérstaklega þegar stóru skemmtiferðaskipin komu hér við. Þá var þetta svolítið brjálað. Oft voru hér tvö stór skip fyrir utan og stundum voru þau þrjú. Þessa daga fylltist bærinn af fólki og gott betur, enda fjögur til fimm þúsund túristar að ganga hér um og skoða og varla hægt að labba á göngustígunum.“
En hvað er það sem erlendir ferðamenn kaupa helst? „Þeir spyrja alltaf um eitthvað íslenskt og helst að það sé héðan úr sveitinni. Eigið þið harðfisk? Þeir spyrja mikið um hann – sem og íslenskt súkkulaði, lakkrís og skyr.“

HAFSALT, KRYDDSMJÖR, BERA, DREKI OG ALVÖR

En hvað með vörur úr héraði, frá Djúpavogi? „Það er fyrirtæki hér sem heitir Hús handanna og framleiðir nokkrar tegundir af hafsalti og kryddsmjöri. Við seljum mikið af því. Svo er hér maður sem heitir William Óðinn Lefever og hann framleiðir sterkar sósur undir merkinu LeFever. Þrjár þeirra eru í gjafaöskjum og heita Bera, Dreki og Alvör. Þær eru merktar ,,hot-sauce“. En alltaf er spurt: er þetta búið til hér?“
Þótt um hafi hægst í ferðalögum landans og ferðamannatíminn að mestu liðinn segir Ana að haustið hafi verið drjúgt. „Við búum að því að þeir sem fara hringinn og um Austfirðina koma yfirleitt hér við hjá okkur. Norræna er með siglingar til Seyðisfjarðar frá mars fram í endaðan nóvember og við njótum góðs af því – svo eru alltaf einhverjir að aka frá Egilsstöðum og fjörðunum hér í kring suður á bóginn og líka að koma að sunnan og eiga hér leið um.“
Kjörbúðin á Djúpavogi er opin frá 9 til 18 alla virka daga, en skemur um helgar. Alls kyns tilboð eru jafnan í gangi eins og í öðrum Kjörbúðum. „Tilboðin eru margs konar og mjög vinsæl. Núna í nóvember erum við til dæmis með spennandi tilboð á kjöti og þurrvörum. Svo er bakaríið okkar vinsælt. Alltaf eitthvað upphitað. Heitar samlokur seljast núna mjög vel,“ segir Ana.

ÍSLENSKA VEÐRIÐ – FERSKT OG SVALANDI

En hvernig hefur henni tekist að venjast veðráttunni á Íslandi? „Bara mjög vel. Þótt ég sé alin upp við miklu hlýrra loftslag þá venst maður íslenska veðrinu fljótt. Hér er tært, ferskt og svalandi loft sem mér finnst bara fínt. Ef það er kalt úti þá er bara að klæða sig vel.“
Hún segist heilluð af náttúrufegurðinni á Íslandi og það sé sérlega fallegt á Djúpavogi og í sveitinni í kringum bæinn. „Hér eru há og falleg fjöll. Þá finnst mér alveg stórkostlegt að vera nálægt sjónum. Hér er svartur sandur við ströndina og það er eitthvað alveg sérstakt við hann. Ég fer talsvert í gönguferðir og finnst æðislegt að ganga í sandinum og anda að mér sjávarloftinu.“

MATARGERÐIN Í HONDÚRAS

Þegar talið berst að matargerðinni á Íslandi segir hún að auðvelt sé að venjast henni og auðvelt að kaupa vörur í íslenskum verslunum til að elda mat ættaðan frá útlöndum – og matargerð sé að jafnast á milli landa.
Um matargerðina í Hondúras segir Ana að hún sé ekki ósvipuð og í Mexíkó nema maturinn í Hondúras sé ekki næstum eins sterkur. „Í Hondúras þekkist varla lambakjöt en kjúklingur, svínakjöt og nautakjöt eru frekar á boðstólum.“
Ana talar ágæta íslensku og talið berst að því hvernig hún hafi lært hana. „Ég hef farið á námskeið hér á Djúpavogi og eins lært mikið á því að þora að tala við aðra á íslensku þótt hún sé ekki upp á tíu. Ég hef verið ófeimin við það. Ég læri alltaf einver ný orð á hverjum degi. Íslenskan er svolítið erfið en samt finnst mér nauðsynlegt að læra hana þegar Ísland er orðið mitt annað heimaland.
Djúpivogur er staðurinn og fjölskyldan unir hag sínum vel. Eiginmaðurinn Francisco starfar í íþróttahúsinu, dæturnar eru í skóla og eldri dóttirin vinnur hjá henni í Kjörbúðinni. Ana stendur í stafni í Kjörbúðinni. „Ég er glöð á Íslandi.“