Ana Gabriela, 43 ára verslunarstjóri Kjörbúðarinnar á Djúpavogi.
Það var um langan veg að fara til Íslands. Hún er frá Mið-Ameríku, Hondúras, heitir Ana Gabriela, 43 ára, og stendur vaktina af mikilli elju sem verslunarstjóri Kjörbúðarinnar á Djúpavogi. Hún er alin upp í höfuðborg Hondúras, Tegucigalpa, sem þýðir Silfurhólar. En það er eitthvað annað og meira en hólar sem umvefja hana á Djúpavogi; tíguleg fjöll Austfjarða með Búlandstind fremstan í fallegum faðmi fjalla.
„Ísland er núna mitt annað heimaland. Hér líður mér vel,“ segir Ana með bros á vör. Hjartað réð för hennar yfir hálfan hnöttinn til Djúpavogs í upphafi. Árið var 2004 og hún flutti til Íslands til að hitta kærasta sinn, Francisco Gomez. Ævintýri hófst.
En eftir bankahrunið haustið 2008 varð hún atvinnulaus og nýfædd dóttir þeirra, Gabriella Ósk G.O., komin í heiminn. „Útlitið var alls ekki gott með vinnu á þessum tíma og það varð úr að við færum heim til Hondúras eftir atvinnulaust ár. Við eignuðumst svo seinni dóttur okkar árið 2013. Hún heitir Fabiana Líf G.O. Áfram var ég úti í Hondúras með stelpurnar en við ákváðum svo árið 2018 að flytja aftur til Djúpavogs,“ segir Ana.
„Ég byrjaði á að vinna á veitingastaðnum Við Voginn. Það var fínt að vera þar, en þótt ég hefði aldrei unnið í verslun ákvað ég að sækja um vinnu í Kjörbúðinni árið 2021. Ég byrjaði sem almennur starfsmaður en fékk mitt tækifæri og varð verslunarstjóri árið 2022. Þetta hefur gengið mjög vel, það er gaman að vinna hér og mikið um að vera.“
FJÖLDI SKEMMTIFERÐASKIPA VIÐ DJÚPAVOG
Ana segir að sumarið hafi verið sérlega gott og sjaldan jafnmargir ferðamenn verið á ferðinni á Djúpavogi. „Það var mikið að gera hér í sumar, sérstaklega þegar stóru skemmtiferðaskipin komu hér við. Þá var þetta svolítið brjálað. Oft voru hér tvö stór skip fyrir utan og stundum voru þau þrjú. Þessa daga fylltist bærinn af fólki og gott betur, enda fjögur til fimm þúsund túristar að ganga hér um og skoða og varla hægt að labba á göngustígunum.“
En hvað er það sem erlendir ferðamenn kaupa helst? „Þeir spyrja alltaf um eitthvað íslenskt og helst að það sé héðan úr sveitinni. Eigið þið harðfisk? Þeir spyrja mikið um hann – sem og íslenskt súkkulaði, lakkrís og skyr.“
HAFSALT, KRYDDSMJÖR, BERA, DREKI OG ALVÖR
En hvað með vörur úr héraði, frá Djúpavogi? „Það er fyrirtæki hér sem heitir Hús handanna og framleiðir nokkrar tegundir af hafsalti og kryddsmjöri. Við seljum mikið af því. Svo er hér maður sem heitir William Óðinn Lefever og hann framleiðir sterkar sósur undir merkinu LeFever. Þrjár þeirra eru í gjafaöskjum og heita Bera, Dreki og Alvör. Þær eru merktar ,,hot-sauce“. En alltaf er spurt: er þetta búið til hér?“
Þótt um hafi hægst í ferðalögum landans og ferðamannatíminn að mestu liðinn segir Ana að haustið hafi verið drjúgt. „Við búum að því að þeir sem fara hringinn og um Austfirðina koma yfirleitt hér við hjá okkur. Norræna er með siglingar til Seyðisfjarðar frá mars fram í endaðan nóvember og við njótum góðs af því – svo eru alltaf einhverjir að aka frá Egilsstöðum og fjörðunum hér í kring suður á bóginn og líka að koma að sunnan og eiga hér leið um.“
Kjörbúðin á Djúpavogi er opin frá 9 til 18 alla virka daga, en skemur um helgar. Alls kyns tilboð eru jafnan í gangi eins og í öðrum Kjörbúðum. „Tilboðin eru margs konar og mjög vinsæl. Núna í nóvember erum við til dæmis með spennandi tilboð á kjöti og þurrvörum. Svo er bakaríið okkar vinsælt. Alltaf eitthvað upphitað. Heitar samlokur seljast núna mjög vel,“ segir Ana.
ÍSLENSKA VEÐRIÐ – FERSKT OG SVALANDI
En hvernig hefur henni tekist að venjast veðráttunni á Íslandi? „Bara mjög vel. Þótt ég sé alin upp við miklu hlýrra loftslag þá venst maður íslenska veðrinu fljótt. Hér er tært, ferskt og svalandi loft sem mér finnst bara fínt. Ef það er kalt úti þá er bara að klæða sig vel.“
Hún segist heilluð af náttúrufegurðinni á Íslandi og það sé sérlega fallegt á Djúpavogi og í sveitinni í kringum bæinn. „Hér eru há og falleg fjöll. Þá finnst mér alveg stórkostlegt að vera nálægt sjónum. Hér er svartur sandur við ströndina og það er eitthvað alveg sérstakt við hann. Ég fer talsvert í gönguferðir og finnst æðislegt að ganga í sandinum og anda að mér sjávarloftinu.“
MATARGERÐIN Í HONDÚRAS
Þegar talið berst að matargerðinni á Íslandi segir hún að auðvelt sé að venjast henni og auðvelt að kaupa vörur í íslenskum verslunum til að elda mat ættaðan frá útlöndum – og matargerð sé að jafnast á milli landa.
Um matargerðina í Hondúras segir Ana að hún sé ekki ósvipuð og í Mexíkó nema maturinn í Hondúras sé ekki næstum eins sterkur. „Í Hondúras þekkist varla lambakjöt en kjúklingur, svínakjöt og nautakjöt eru frekar á boðstólum.“
Ana talar ágæta íslensku og talið berst að því hvernig hún hafi lært hana. „Ég hef farið á námskeið hér á Djúpavogi og eins lært mikið á því að þora að tala við aðra á íslensku þótt hún sé ekki upp á tíu. Ég hef verið ófeimin við það. Ég læri alltaf einver ný orð á hverjum degi. Íslenskan er svolítið erfið en samt finnst mér nauðsynlegt að læra hana þegar Ísland er orðið mitt annað heimaland.
Djúpivogur er staðurinn og fjölskyldan unir hag sínum vel. Eiginmaðurinn Francisco starfar í íþróttahúsinu, dæturnar eru í skóla og eldri dóttirin vinnur hjá henni í Kjörbúðinni. Ana stendur í stafni í Kjörbúðinni. „Ég er glöð á Íslandi.“